Nú á dögunum kom út ný reglugerð um velferð gæludýra á Íslandi. Í henni kennir margra grasa og ýmsar breytingar sem er þar að finna frá fyrri reglugerð. Ein af breytingunum snýr að merkingum gæludýra sem nú er orðin krafa á alla gæludýraeigendur landsins.
11. gr.
Merking og skráning.
Umráðamanni hunda, katta og kanína er skylt að auðkenna öll dýr innan 12 vikna aldurs með einstaklingsörmerki skv. alþjóðlegum ISO-staðli. Samtímis skal örmerkjanúmerið skráð í miðlægan gagnagrunn sem er samþykktur eða rekinn af Matvælastofnun. Umráðamanni ber að tryggja að upplýsingarnar séu réttar á hverjum tíma. Umráðamaður ber allan kostnað af merkingu og skráningu dýra sinna.
Hundar og kettir sem fara út skulu frá fjögurra mánaða aldri bera hálsól með merki þar sem fram koma eigendaupplýsingar svo sem nafn og símanúmer umráðamanns.
En hvernig merkjum við gæludýrin okkar ?
Örmerki - Hvað er það ?
Örmerkið er lítil tölvuflaga, á stærð við lítið hrísgrjón, sem stungið er undir húð á hálsi eða milli herðablaða. Örmerkið ber í sér 15 talna kóða sem hægt er að lesa með sérhæfðum örmerkjalesara, og er hverju örmerki úthlutað einum kóða sem finnst ekki í neinu öðru örmerki. Örmerkið virkar því eins og fingrafar eða kennitala, engin tvö örmerki eru eins og engin tvö dýr bera sama talnakóðan. Örmerki á Íslandi eiga öll að vera skv. stöðlum Alþjóða staðalráðsins (ISO 11784 eða 11785).
Örmerking - Hvernig ?
Örmerking á gæludýrum er framkvæmd af dýralækni. Örmerkið kemur í tilbúnum sprautum þar sem flagan liggur inni í nálinni. Nálin er aðeins í stærri kantinum en sjaldan sem heyrist múkk í dýrinu þegar merkið er sett í. Merkið er venjulega sett í hálsinn vinstra megin en einnig er þekkt að það sé sett á milli herðablaða eða hægra megin í háls.
Örmerking - Hvers vegna ?
Örmerking er öryggisatriði. Það að dýr sé örmerkt og örmerkið skráð í gagnagrunn er mjög mikilvægt í þeim tilfellum þar sem dýr týnast eða stinga af og lenda í slysi. Það gerist mjög reglulega á dýralæknastofum landsins að komið sé með óskila dýr til að lesa örmerkið, eða komið sé með slösuð eða látin dýr sem hafa lent í slysi. Rétt skráð örmerki hefur í flestum tilfellum komið týndum eða slösuðum dýrum til sinna eigenda.
Hvaða dýr er skylda að örmerkja ?
Samkvæmt nýju samþykktinni er í dag skylda að örmerkja alla hunda, ketti og kanínur. Áður hefur það verið skylda að örmerkja og skrá alla hesta á landinu. Reglugerðin segir að þetta skuli vera gert innan 12 vikna aldurs en gefur 6 mánaða aðlögunarfrest fyrir eigendur til að örmerkja þau gæludýr sem enn eru óörmerkt.
Það er á ábyrgð hvers eiganda að sjá til þess að öll dýr séu skráð rétt í þar til gerða gagnagrunna, en fyrir hunda og ketti á íslandi er notast við gagnagrunninn dýraauðkenni (www.dyraaudkenni.is) þar sem grunn upplýsingar um öll skráð dýr eru geymd ásamt upplýsingum um eiganda með heimilisfangi og símanúmeri.
Það er á ábyrgð hvers eiganda að sjá til þess að öll dýr séu skráð rétt í þar til gerða gagnagrunna, en fyrir hunda og ketti á íslandi er notast við gagnagrunninn dýraauðkenni (www.dyraaudkenni.is) þar sem grunn upplýsingar um öll skráð dýr eru geymd ásamt upplýsingum um eiganda með heimilisfangi og símanúmeri.